Út fyrir endimörk þægindarammans
Ég held að ég byrji þessa færslu á að segja
Gleðilegt nýtt ár
Gleðilega nýja Karen Ösp
Ég hef ekki verið virk hérna á síðunni minni síðasta árið vegna veikinda, það er löng saga sem ég fer betur út í seinna en til baka er komin ný og endurbætt Karen Ösp.
Lífið er ótrúlegt það leiðir mann á magnaða staði ef maður leyfir því að gerast, þriðjudag í febrúar fæ ég tölvupóst frá Reykjalundi þar sem mér er tilkynnt að ég sé útskrifuð, útskrifuð úr endurhæfingu sem ég þurfti aldrei að fara í vegna minnar eigin þrjósku og þrautsegju. Ég er komin á það góðan stað sjálf að ég þurfti ekki að fara í skipulagða endurhæfingu á vegum Reykjalundar, sama kvöld sé ég auglýsingu hjá Evolvia um Markþjálfunar nám. Nám sem mig hefur dreymt um að fara í í dágóðan tíma, án þess að hugsa var ég búin að skrá mig og byrjaði fyrstu skólalotuna 77 tímum seinna.
Kvöldið áður en skólinn hófst velti ég fyrir mér hvað í ósköpunum ég væri búin að koma mér í, bjó til 1000 afsakanir en þrátt fyrir það mætti ég og heillaðist. Ég fann að þarna er mín hilla, á þetta kallar hjartað mitt.
Afhverju Markþjálfun?
Eftir mitt ekki langa lífshlaup sem hefur einkennst af allskonar mis auðveldum verkefnum þá hef ég lært að þú getur allt sem að þú vilt og því meira sem þú trúir því, sérð það fyrir þér og finnur tilfinninguna á lokastað þá gerast kraftaverk.
Markþjálfun einkennist af vitundasköpun, kröftugum spurningum og virkri hlustun. Þinn tími til að sjá fyrir þér hvað hefur jákvæðust áhrif á lífið þitt, þetta eina líf sem að við eigum. Tími sem þú ræður algjörlega, tími þar sem enginn er að gagnrýna eða ráðleggja þér heldur hlusta og fara með þér i þetta ferðalag.
Ég er komin ágætlega á veg í náminu, mæta í lotur, mæta í mentor markþjálfun og æfa mig að markþjálfa sem er komið það vel á veg að ég þarf að rukka eitthvað fyrir tímana mína. Það getur verið allt frá kaffi upp í 500 krónur.
Ég vil láta gott af mér leiða meðan við erum á óvissu tímum og þessvegna er ég að markþjálfa í gegnum forrit sem heitir Zoom, þú getur því komið í þjálfun til mín óháð því hvar þú býrð og fyrir litlar 500 kr (eða einhver skipti sem við semjum um)
Þessir tímar reyna á okkur og ef þú situr fullur af óvissu þá endilega hafðu samband, þú getur skráð þig hér í tíma.
Ég hef sjálf fundið hvað markþjálfun hjálpar mér, ég hef aldrei verið jafn full af krafti en á sama tíma svo róleg. Ég tekst á við óvissuna með yfirvegun og á sama tíma hugsa um það hvernig ég get notað tímann fyrir mig á uppbyggilegann hátt.
Skilgreining ICF alþjóða samtaka Markþjálfa á Markþjálfun
Markþjálfun er viðvarandi samband sem miðar að því að viðskiptavinurinn taki skref sem gera framtíðarsýn, markmið og óskir hans að veruleika. Markþjálfi notar ferli spurninga og persónulegra uppgötvana til að efla vitund og ábyrgð viðskiptavinarins. Hann veitir honum jafnframt aðferðir, stuðning og endurgjöf. Markþjálfunarferlið hjálpar viðskiptavininum bæði að skilgreina og ná faglegum og persónulegum markmiðum hraðar og auðveldar en annars væri mögulegt.