Hreint mataræði

Fyrir að verða 3 árum fékk ég nóg af verkjum og allt var í ákveðri biðstöðu því ég var á leiðinni í endurhæfingu. Ég fór að skoða hvað annað fólk með gigt væri að segja, hefði það prófa að breyta um mataræði, hvað segja læknar og svo framvegis. 

Ég komst að því að niðurstöðurnar eru misjafnar eins og við erum ólík. En hófst handa að prófa að fjarlægja hina og þessa fæðuflokka úr lífi mínu og sjá hvað myndi gerast.

Ég byrjaði að taka hvítan sykur, síðan glútein og þar næst allar mjólkurvörur. Niðurstaðan var sláandi en næst þegar ég fór í blóðprufu var ég bólgulaus í fyrsta skipti. Ég fékk í kjölfarið rúmt ár þar sem ég var nokkuð góð og var á fullu í endurhæfingu. En árið 2015 fékk ég aftur miklar bólgur en ég er með þannig sjúkdóm að hann er rúsíbanareið.

Í enda 2016 voru einhver einkenni farin að angra mig aftur þrátt fyrir að ég væri ennþá að halda mínu striki í mataræði. Ég vaknaði á morgnana til dæmis alltaf stífluð í nefinu og þetta var bara svona himna, ég var alltaf með slím í hálsinum og oft þungt yfir mér allri.

Ég sá stelpu á snapchat (snappið :maturogmedvi ) vera í 21 daga hreinsun og hafði samband við hana og spurði hvað hún væri að gera og þessháttar. Hún mældi með að lesa bók sem heitir Hreint mataræði.

Ég stökk því næst út í búð og las þessa bók. Hún er mögnuð, hún er svo eðlileg en þar er lýst hreinsun og í raun getur maður gert þetta að vissu leyti eftir sínu höfði, en bókinn er mjög góður grunnur að byggja á. Það er talað um fæðubótaefni, ræktun í dag og hvað streita getur haft slæm áhrif á líkamann svo eitthvað sé nefnt.

Við Óskar tókum því ákvörðun að allt væri leyfilegt um jólin og 3.janúar myndum við byrja en þú byrjar ekki í svona hreinsun nema skipuleggja þig vel. Við gerðum matseðil fyrir þessar 3 vikur og ákváðum alltar máltíðir í samræmi við það sem við vildum prófa að gera. Við drukkum 2 safa á dag og borðuðum einungis grænmeti og baunir en leyfðum fisk 1 sinni í viku.

Að hafa gert matseðil og verslað eftir honum daginn fyrir hreinsun gerði þetta rosalega auðvelt, við tömdum okkur líka að undirbúa matinn og safana áður en við færum að sofa á kvöldin, eins að hafa öll vítamín tilbúin.

Ég myndi segja að fyrstu 2 dagana hefði þetta tekið á en eftir það var allt á uppleið og mér leið betur og betur. Svo ekki sé minnst á að ég kvaddi nokkur kíló sem máttu alveg fara.

Við vöndum okkur svo á að drekka vatn með eplaediki og sítrónu á morgnanna auk þess að taka 2 msk af hörfræjaolíu. Einnig drekk ég 2 stór vatnsglös og te áður en ég byrja að borða morgunmat, þessi morgunrútina komst upp í vana hjá okkur og gerum við þetta ennþá 2 mánuðum seinna. Ég er því yfirleitt að byrja að borða klukkutíma eftir að ég drekk vatnið með eplaedikinu og sítrónunni, það hentar mér mjög vel þá er allt komið afstað og maturinn fer betur í mig.

Á kvöldin tökum við 2 msk af olífuolíu og drekkum vatn með sítrónu ilmkjarnaolíu dropum. Mér finnst vera mikið minni læti í maganum á mér ef ég geri þetta eftir kvöldmat.

En eftir Hreinsunina bætti ég inn einni og einni fæðutegund og komst að ýmsu.
Fyrsta að ég ELSKA egg.. en þau eru ástæðan fyrir slím mynduninni og þessum þyngslum sem voru að angra mig. En ég var bara svo svakalega stífluð að ég fann ekkert þegar ég borðaði egg en eftir hreinsunina kom það mjög skýrt fram, ég prófaði heilt egg, bara hvítu og bara rauðu en þetta hafði allt sömu áhrif. Við erum því að læra að baka og elda án eggja sem er lærdómur þar sem það voru mjög oft egg á þessu heimili.

Annað er það að ég ræð við smjör, ost og sýrðan rjóma en ekki aðrar mjölkurvörur.

Þriðja var síðan það að ég ræð við glútein en ekki fínmalað. Ef kornið er sem líkast sínum uppruna þá finn ég ekkert fyrir þessum einkennum.

Hvítur sykur er ennþá ekki vinur minn.

Við gerum matseðla fyrir hvern mánuð í einu og reynum að fara 2 sinnum í mánuði í búð. Með því að skipuleggja sig og pakka grænmetinu vel inn í ískáp þá er nóg að fara á 2 vikna fresti.

Við erum með safa 2 sinnum á dag og undirbúum við þá í plastpoka viku fram í tímann því við erum með sömu safana viku í senn. (en ég skal gera fræslu á næstunni um hvernig við undirbúum allt)

Við höfum tekið þá ákvörðun að deila með ykkur matseðlinum okkar og svo þá uppskriftum þegar við munum að henda þeim inn.

Við reynum að borða eins hreint og við getum og borða það sem lætur manni líða vel, mér finnst lífið of stutt til að finna til í líkamanum af því ég er að borða eitthvað sem er ekki gott fyrir mig. Við eigum bara einn líkama og þá finnst mér að maður eigi að bera virðingu fyrir honum.

Ég mæli með að fólk lesi þessa bók Hreint Mataræði.

Matseðlarnir koma upp í vinstra hornið.

Kærleikskveðja
Karen Ösp