Elsku vinkona
Oft þegar ég verð fyrir vonbrigðum með eigin getu, s.s að geta ekki gert allt sem ég ætlaði mér að gera eða finnst allir vera að taka frammúr mér í menntun og lífinu þá byrja ég að rakka mig niður. Ég er mjög klár í að brjóta mig niður, mér finnst ég t.d algjör aumingi og skil oft ekki afhverju fólk umgengst mig því ég sé jú svo glötuð.
Nú hlýt ég þeirra forréttinda að eiga vinkonur á svipuðum stað og ég sjálf. Eru að kynnast veikindum sínum og upplifa þetta vonleysi sem er svo erfitt. Forréttindi hugsið þið, sjálfselskt af mér en það að eiga vinkonu sem skilur 100% hvað þú ert að ganga í gegnum er ekki hægt að útskýra með orðum. Ég leita til þeirra jafnt og þær leita til mín, yfirleitt í svona ástandi þá er alltaf önnur með hausinn rétt skrúfaðan á og nær hinni á góðan stað.
Ég fór að hugsa fyrir ekki löngu þegar ég var á fullu að rakka mig niður, myndi ég tala svona við vinkonu mína á sama stað? Svarið er nei ALDREI. En hvað myndi ég þá segja við hana þegar hún leitar til mín í svona ástandi?
Ég myndi aldrei leyfa henni að tala svona við sig, ég myndi segja henni að :
Hún væri frábært eintak af manneskju, hjartahlý, björt og fögur. Mér finnist ég heppin að fá að umgangast hana og læra af öllu því sem hún getur kennt mér. Ég sé svo stolt af því að fá að hafa hana í lífinu mínu og að horfa á alla sigrana sem hún nær. Svo ekki sé minnst á alla þá ósigra sem hún breytir í sigra. Mér þyki svo vænt um hana og er þakklát að hafa ferðafélaga í gegnum þetta allt. Hún sé gull sem glóir alla daga.