Amman mín

Rétt fyrir jól las ég svo fallega færslu frá henni sr. Sólveigu Höllu minni sem fermdi mig fyrir 10 árum. Þar skrifaði hún um sorgina og jólin, fyrstu jólin eftir missi ástvina, hún sagði allt sem ég þurfti að heyra á þessum tímum.


Í júlí síðastliðnum kvaddi ég ömmu mína, fólk hugsar amma já hún hefur verið gömul nei amma var alls ekki gömul amma mín hefði orðið 72 ára í dag. Amma mín var búin að vera veik og mikið veikari en hún leyfði okkur að vita.

 
Amma mín dó næstum jólin fyrir 2 árum, það var alveg hryllilega erfitt en við fengum 1 og hálft ár saman í viðbót og því er ég þakklát. Ég trúi að það sé bæninni að þakka, ég bað og bað Sr.Sólveigu Höllu að biðja. Amma kenndi mér að biðja því fannst mér það eina rétta fyrir 2 árum að biðja. 


Amma mín var ekki bara amma, hún var vinkona sem ég gat talað um allt við, ég leitaði ráða og létti á hjarta. Ég byrjaði ung að leita til ömmu hún lagaði allt hvort sem verkir voru í líkama eða sál. Amma gaf líka besta nuddið og þegar maður faðmaði hana var kynnin hennar svo mjúk. Amma gerði allt með ást.
Amma var með gigt, amma kenndi mér á gigtina mína, amma sagði mér allskyns náttúruleg ráð við gigtinni. Þetta voru forréttindi. 


Frá því í júlí hef ég flúið staðreyndina að amma mín sé dáin, trúði því að ef ég hlypi bara nógu hratt myndi sársaukinn ekki ná mér. Í hvert sinn sem kökkurinn kom í hálsinn setti ég upp grímuna því þetta mátti ekki vera satt. Í október slasaði ég mig og þá blasti kaldi, vondi raunveruleikinn við. Ég gat ekki hringt í Ömmu, eftir hvern læknatímann varð þetta verra því ég gat ekki hringt í Ömmu.  Í nóvember lést lang amma mín þá 92 ára, í kistulagningunni gat ég ekki andað og ætlaði út ef Óskar hefði ekki verið fyrir. Ég ætlaði að halda áfram að hlaupa, hlaupa frá sársaukanum, staðreyndunum að þær væru dánar. 
Í aðdraganda jólanna fórum við að skoða gestalistan fyrir brúðkaupið okkar, jólakort og jólagjafir. Ég grét í hvert skipti sem ég þurfti að taka nafnið hennar ömmu í burtu. Ég ætlaði að gifta mig með hana á lífi, dansa smá við ömmu finna mjúku kynnina hennar þegar hún knúsar mig og sjá gleðina skína úr andlitinu hennar. En það verður engin amma sem segir vá skvísa við mig og hlær í leiðinni.


Ég er sorgmædd, ég græt öllum stundum og ég ræð ekki við sorgina. Við ótrúlegustu aðstæður þarf ég að gráta, ég er grátbólgin næstum allann daginn. Ég er í molum. Ég tengi ekki ömmu við jólin nema það að amma átti afmæli 27 desember og einu jólaboðin sem ég man eftir er þegar pabbi setti pressu á hana að halda smá kaffi. Þá undirbjuggu pabbi og amma veitingar í Ömmu anda. 

Nú er aðfangadagur og afmælið runnið upp, það sem mig er oft búið að langa til að stinga hausnum á undan mér og byrja að hlaupa. Hlaupa frá þessum vonda verk sem er í hjartanu mínu.

15730818_10206907920530391_1591171725_n.jpg

 


Amma mín ég lofa að ég er líka að reyna að lifa en amma mín suma daga ert þú eina með svörin, þá sést ég í hornið þitt heima og reyni að finna ró. Ég kíki í bækurnar þínar og stundum velti ég fyrir mér hvort þú hafir merkt sálmana því þú vissir að ég fengi trúar bækurnar þínar. En amma ég ætla líka að leyfa mér að syrgja, þú myndir segja mér að syrgja alla nema sjálfa þig. Því amman mín, það fyllir engin skarðið sem þú skildir eftir. Elsku amma ég missti ekki bara ömmu mína í júlí heldur líka trúnaðar vinkonu, vinkonu sem ég gat rætt svo mikið við.
Elsku amma ég veit að ég má vera sorgmædd, ég má gráta alltaf þegar ég þarf að gráta þótt það séu jól og þótt það sé að verða komið hálft ár síðan þú kvaddir.
Það sem ég lærði og er að minna mig á eftir að hafa lesið hugvekjuna hennar Sólveigar er að þetta voru góð jól en ekki gleðileg og það er allt í lagi.
Elsku elsku amma þú kenndir mér svo margt, ég var á námskeiði og átti að skrifa hvernig ég vildi að mér yrði minnst og það var einfalt. Mér yrði minnst sem dóttur dóttir þinni, algjörlega fordómalaus eins og þú amma mín. Þú gerðir allt fyrir alla og gleymdir þér oftast. Amma ég ætla líka í guðfræðina, þú táraðist þegar ég sagði þér hvert ég stefndi, amma við tökum þetta saman.
Amma ég veit líka að það birtir til einn daginn og þú munt hjálpa mér. Ég hef ákveðið að treysta Guði aftur og láta hann leiða mig í gegnum þetta.
Amma systur þínar eru gull, ég eignaðist 2 ömmur þær tóku mér sem sinni. Þær komu í kaffi og við töluðum um legið okkar, gigt og blæðingar alveg eins og ég og þú.
Amma ég elska þig af öllu hjarta, sakna þín líka af öllu hjarta, ég vildi að við hefðum fengið fleiri ár saman en þú varst jaxl og ég skil líka afhverju þú vildir fara.
Amma takk fyrir bréfið, takk svo mikið. Það hjálpar mér alla daga því ég veit hvað þér fannst um mig.

 

13707816_10209837717089666_2263866925198974063_n.jpg


En amma taktu 10.júní frá, komdu í brúðkaup!
Kærleiksveðja
Ömmuskottan þín 

Karen Ösp Friðriksdóttir