Er ég ómissandi?
Ég hef í mörg ár talið mig ómissandi, ég ein geti gert sörurnar, þrifið húsið rétt, pakkað inn gjöfum, gert jólakort, skreytt og þar eftir götunum. Og núna erum við bara að tala um jólaundirbúninginn, allann ársins hring er ég með langan lista yfir hluti sem ég verð að gera og ég ein get gert.
Oft pirrar það mig þegar Óskar kemur fyrr heim því þá er hann fyrir öllu því sem ég ein get gert.
Já þetta hljómar fáránlega því að ég ætti að fagna því að hann komi fyrr heim til mín og hann hjálpar mér fyrir eitt orð.
Á þessu ári hef ég ekki verið jafn heilsu hraust og ég vildi og því lært að allir þessir hlutir sem ég ein get gert geta fleiri gert til að létta undir og þeir eru alls ekki bara mín skilda. Þetta var erfitt, virkilega erfitt og ástandið var þannig að ef Óskar vaskaði upp þá fór ég og þurrkaði aðeins með tuskunni eftir á til að þetta væri eins og ég vildi.
Þetta var ljótt því hann gerði sitt besta og það var ekkert til að þurrka með tuskunni bara þráhyggja í mér að hafa allt eins og ég geri það.
Óskar hefur tekið mér alveg eins og ég er og hjálpar mér alltaf. Hvort sem það eru heimilisstörf, klæða mig í föt eða sprauta mig með lyfjunum. Hann gengur í allt, því er ótrúlega sárt að ég treysti honum ekki fyrir hlutunum og sjái að ég er ekki ómissandi.
Óskar er besti unnusti, pabbi og vinur sem hægt er að hugsa sér og ég veit ekki um hjarta hlýrri mann.
Mig langar því að segja ykkur að þessi jól prófaði ég að biðja um hjálp, deila með Óskari hvað mig langaði að gera og skilja að það er ekki allt á mínum herðum.
Við undirbjuggum jólakortin saman eina kvöldstund og pökkuðum inn jólapökkunum saman. Við gerðum vissulega meira saman en þessar 2 kvöldstundir voru yndislegar, við hlóum, gerðum grín af hvoru öðru og undirbjuggum jólin í sameiningu.