Velkomin í nýja starfið
Það eru nokkrir hlutir sem ég vildi að hefðu verið gerðir þegar ég var metin 75% öryrki varanlega.. því þetta er ástand sem reiknað er með að verði eitthvað viðvarandi og jafnvel að eillífu.
Fyrsta er að ég hefði fengið bækling um réttindi mín, því ekki spurja mig um réttindi öryrkja.. ég er ennþá að læra þau og reyna að skilja þau.
En hitt sem mér finnst mikilvægast er að ég vildi að ég hefði fengið starfskynningu.
Starfskynningu kunnið þið að spurja en þú ert á bótum.
Nei ég horfi ekki á sjálfan mig sem manneskju á bótum... fyrir hvað er verið að bæta mér upp? Ég er ennþá lasin þótt það komi peningur inn á reikninginn minn hver mánaðarmót. Staðan er sú sama, ég er ekki minni máttar og sætti mig ekki við að þetta sé kallað bætur.
Þetta eru launin mín fyrir að vinna í sjálfri mér og hugsa hvern dag sem tækifæri til að verða betri ég.
Ég valdi ekki að veikjast og vera kippt út úr lífinu 24 ára en ég er í staðin að verða besta eintak af mér sem ég get orðið. Þetta er tækifæri en ekki smánun.
En þar sem ég fór ekki í starfskynningu á nýja starfinu mínu eins og flestir aðrir þegar þeir byrja í nýrri vinnu þá ákvað ég að henda í smá lista fyrir aðra sem eiga eftir að feta mín spor og jafnvel aðra sem feta ekki mín spor.
1. Þú ert ekki minnimáttar, ekki skammast þín fyrir vinnuna þína.
2. Þín vinna snýst fyrst og fremst um það að hugsa um sjálfa þig.
3. Fáðu þér dagbók, því dagbók er eigilega mikilvægari fyrir þig en forstjóra í stóru fyrirtæki. Þú verður að ákveða hvernig þú ætlar að hafa dagana til að finna þína rútínu.
4. Farðu á fætur ALLA daga sem þú hefur heilsu til, klæddu þig þótt að það sé bara kósý gallinn, greiddu þér og hafðu þig aðeins til. Það skiptir ekki máli þótt að þú sért bara að fara að vera heima þá skiptir máli að fara á fætur og hafa sig til fyrir daginn.
5. Stilltu vekjaraklukku, já það þýðir ekki að sofa út alla daga.
6. Sestu niður og skrifaðu hvað þig langar að gera við lífið, finndu þér markmið, finndu leiðina til að ná þeim og EKKI setja örorkuna þína fyrir þig sem vandamál.
7. Finndu hreyfingu sem hentar þér og þínum veikindum, stundaðu hana svo jafn oft og þú treystir þér.
8. Komdu rútínu á lífið þitt
9. Hafðu hreint í kringum þig heima, fáðu vini eða ættingja til að hjálpa þér að koma heimilinu á núll punkt og haltu því svo við eftir þinni getu. Heimili sem er allt í drasli lætur manni líða ennþá verr.
10. Gerðu allt sem lætur þér líða vel, andlega og líkamlega.
Nei þetta er alls ekki flókið, ég á dagbók.. hún er útskrifuð eins og ég sé mjög upptekin manneskja. En ég er mjög upptekin, að gera það sem hjálpar mér.
Þótt að þú sért metinn öryrki þá hættir ekkert lífið þitt, þig langar enn að vinna við hitt eða þetta, læra þetta eða hitt og þú ert ennþá eins og allt hitt fólkið sem er ekki á örorku. Þessvegna verðuru að byrja einhversstaðar og fyrsta er að byrja að stilla vekjaraklukku og finna út hvernig þú vilt eyða dögunum.