Kríli hæ Kríli hó

Mér finnst mjög erfitt að finna út hvernig ég eigi að byrja, ég er full af hugmyndum og þá oft erfitt að vita hvar maður eigi að setja fótinn niður.

Ég hugsa að ég segi ykkur hvað sé búið að ganga á og afhverju það hefur ekki komið inn færsla frá mér síðan í Mars.
Eins og margir vita held ég skipulagsdagbók, ég held utan um allt sem ég þarf að gera svo ég sé ekki að keyra mig oft út og hitta sama vegginn aftur og aftur.

Mánaðarmótin Mars/Apríl sat ég því og skoðaði dagbókina fyrir komandi mánuði og gerði mér grein fyrir að ég væri að reyna að halda alltof mörgum boltum á lofti og einhverjum þyrfti ég að kasta í burtu í bili. 

Í Apríl væru nefninlega páskarnir og við á leiðinni til Glasgow með vinnunni hans Óskars.
Ég vissi að ég ætti ekki nógu mikla orku inni í orkubankanum til að ráða við allt sem þurfti að gerast í Apríl svo ég ákvað að hvíla bloggið um stund. 
Apríl snérist því um hvíld, hreyfa mig eins og ég gat og njóta með fólkinu okkar.

Maí var síðasti mánuðirinn fyrir Brúðkaupið okkar, nokkrir hlutir sem voru ókláraðir ásamt því að enn var ekki búið að gæsa og steggja okkur. Nóg af hlutum sem krefjast orku og vildi ég geta notið þeirra án þess að líða illa.

Maí var líka fullkominn síðasti mánuður fyrir brúðkaup, við kláruðum það sem þurfti að klára og nutum þess sem koma skal.

Júní var svo mánuðurinn sem við höfum beðið eftir síðan við trúlofuðum okkur 2014. Húsið fylltist af fólki frá bandaríkjunum viku fyrir brúðkaup sem var fullkomið, samverustundir og undirbúningur. Stóri dagurinn var 10.júní og ég skil núna þegar fólk segir að brúðkaupsdagurinn hafi verið besti dagur lífs þeirra. Engar áhyggjur ég mun gera færslu um brúðkaupið.
Dagarnir eftir einkendust af hvíld, ég verð samt að hrósa sjálfri mér því að ég lagði mikið af orku inn í orkubankann fyrir daginn og því var orkuyfirdrátturinn ekki svo hár þegar kom að skuldadögum. Mánuðurinn leið og ég held að við höfum verið á bleiku skýi allann tímann.

Júlí byrjaði ég að koma hreyfingu í rútínu og fólst hann í því að hreyfa mig og sofa en um leið og þetta small fór allt að ganga betur. Kúturinn okkar var hérna frá 21 júlí og liðu þessar 4 vikur alltof hratt. Ég verð að viðurkenna að dagar þar sem við erum saman fjölskyldan gefa mér rosalega mikið.

Ágúst var í samveru fjölskyldunnar og reyna að koma öllu af stað fyrir veturinn og haustið.

September hef ég bæt einu og einu inn til að koma upp dagskrá fyrir vikuna. Hún er svo komin þessvegna sit ég og skrifa niður hvað hefur drifið á daga mína.

70aca32861d2e8b5e3581f4a17ddea89.jpg

 

Ég fékk að heyra ótrúlega oft á þessum tíma
"Ég gæti ekki gert ekki neitt" 
Mér langar því að deila með ykkur sumrinu 2012.

Sumarið 2012 var ég ekki greind með alla þessa sjúkdóma sem eru komnir í dag og ég var á fullu í því að sigra heiminn. 
Ég var í sumarskóla, vann við bókhald og að þvo þvott á Friðrik V. Um mitt sumarið fæ ég svo þá hugmynd að taka 10km í Reykjavíkur Maraþoninu og fór á fullt að æfa fyrir það. Auk þess var ég 20 ára og við munum öll að það var líf og fjör á þeim aldri.

Einn daginn var ég í hádegismat hjá mömmu og pabba því amma Mæja var í bænum. Ég var eitthvað listalaus og allt í einu fannst mér ég valla geta haldið mér sjálfri uppi. Ég man lítið meira eftir þessum deigi, ég man að ég lá inni á baði, á gólfinu og svo á biðstofunni upp á Bráðadeild. Einnig man ég svipinn á mínum nánustu þessa hræðslu, henni mun ég aldrei gleyma. Fólkið mitt var ekki einungis hrætt heldur voru læknarnir það líka, á fyrstu myndatökunni af höfðinu á mér leit þetta út eins og heilablæðing. Ég var því send akút í segulómun af höfðinu, man ég eftir því? nei ekki neitt. En sem betur fer var þetta ekkert alvarlegt, heldur hafði ég ofkeyrt mig.

Ég hlustaði ekki á líkamann heldur óþ áfram að taka þátt í þessu mikla lífskapphlaupi. 

Dagarnir eftir eru hálf gloppóttir líka, ég man hinsvegar að ég mátti ekki vera skilin eftir ein heima, því voru vinkonur mínar að passa mig og fjölskyldan mín. Ég var því 20 ára með pössun.

Ég lofaði fólkinu mínu að gera þeim þetta aldrei aftur, ég myndi læra af þessum rosalega skelli sem ég fékk og passa upp á sjálfa mig. Það er jú bara til ein Karen Ösp Friðriks. 

Stundum gleymi ég mér en ég finn miklu fyrr heldur en þarna hvenær ég er að ganga of langt. mér finnst fátt verra en að klessa á vegg og þurfa að byrja upp á nýtt. Þessvegna vil ég segja þessir mánuðir voru rólegir flesta daga en ég naut daganna sem meira var í gangi afhverju? jú vegna þess að ég passaði upp á mig og gerði það sem þurfti að gera til að þetta væri ánægjulegt fyrir alla.

Kærleikskveðja
Karen Ösp

Karen Ösp Friðriksdóttir